Ofursunnudagur í Grafarholti

Ofursunnudagur Frisbígolfbúðarinnar og FGR var haldin í Grafarholti þann 30. september og gekk eins og í lygasögu. 37 keppendur voru skráðir til leiks og lék veðrið við þá með logni og sólskini. Byrjað var á Meistaramóti Frisbígolfbúðarinnar og var fyrirkomulagið sérlega skemmtilegt. Níu holl lögðu af stað og kepptu innbyrðis þannig að misgóðir/misheppnir spiluðu af mismunandi teigum og jafnaðist leikurinn verulega við það. Níu sigurvegarar hollanna héldu svo áfram í úrslitakeppni og máttu þola truflun áhorfenda og annarra keppenda við hvert kast. Lakastur árangur á hverri braut þýddi að viðkomandi datt úr leik og saxaðist smám saman á hópinn uns aðeins tveir voru eftir: Hólmar Árnason og Blær Örn Ásgeirsson. Þurfti þriggja brauta, tvísýnan bráðabana til að fá niðurstöðu og endaði Blær sem sigurvegari mótsins.
Í hálfleik var sett á lengdar-, nándar og púttkeppni og köstuðu keppendur fimm diskum í hverri keppni. Úrslit í lengdarkeppninni urðu þau að Blær Örn átti lengsta kastið og mældist það 144 metrar. Þorsteinn Óli Valdimarsson kom næstur og í þriðja sæti var Kristján Dúi Sæmundsson.
Í púttkeppninni var fyrirkomulagið þannig að gefnar voru fjórar fjarlægðir: 6, 8, 10 og 12 metrar. Keppendur gátu valið hvaðan þeir köstuðu og fengu samsvarandi stig fyrir staðinn sem þeir hittu af. Árni Sigurjónsson hafði sigur með samtals 32 stigum.
Í nándarkeppni var kastað að skotmarki í 40 metra fjarlægð og fengust stig fyrir að hitta í hringi í 1-5 metra fjarlægð frá skotmarkinu og lögð voru saman stig allra fimm diskanna. Eftir bráðabana um fyrsta sæti varð sigurvegari Ólafur Haraldsson, Þorgils Árni Hjálmarsson varð í öðru sæti og Friðrik Snær Sigurgeirsson hreppti þrjiðja sæti eftir bráðabana við Gunnar Gunnarsson.
Frisbígolfbúðin og Frisbígolffélag Reykjavíkur þakka keppendum fyrir frábæra skemmtun og góðan dag.

Olafur Haraldsson